Áverkar á og liðhlaup í axlarhyrnulið
Áverkar á axlarhyrnuliðinn eru algengir áverkar og telja ca. 9% af þeim áverkum sem verða á öxlinni.
Verða til vegna falls á útréttan arm eða fall beint á öxlina.
Einkenni
Verkur í og kringum axlarhyrnuliðinn sem oft leiðir upp í sjalvöðvann.
Greining
Saga um fall á arminn eða öxlina.
Verkur við lyftu / vinnu yfir axlarhæð
Eymsli í og verkur við þreifingu yfir liðnum. Óstöðugleiki í liðnum við lárétt álag og við lóðrétt álag.
O´Brien og Crossover body greiningarpróf eru yfirleitt jákvæð
Myndgreining
Hefðbundin röntgenmyndataka er kjörvalin fyrir að útiloka brot á ysta enda viðbeins eða á krummaklakkshyrnunni en báðið áverkar geta litið sem liðhlaup í axlarhyrnuliðnum.
Tölvusneiðmyndataka eða segulómun er yfirleitt óþörf.
Stöðugleiki axlarhyrnuliðarins
Sjálfir liðfletir liðarins veita nær engann stöðugleika, ólíkt t.d. mjaðmarliðnum þar sem liðhöfuðið situr gott inni í augnkarli mjaðmargrindarinnar. Liðpoki liðarins ásamt tveimur liðböndum (samsíðungs- og keiluliðbandinu) sem liggja milli krummaklakkshyrnunnar og viðbeinsins, veita nær allan stöðugleika í liðnum.
Flokkun
Charles A. Rockwood setti fram flokkun á áverkum axlarhyrnuliðarins árið 1984 í 2. útgáfu bókar sinnar “Fractures in adults”. Þetta flokkunarkerfi er mest notað í dag en er ekki án vandkvæða.
Hann skipti áverkunum í 6 flokka (I - VI).
Það er nokkur samhljómur um að flokkar I og II þurfi ekki sértækrar meðferðar og að sama skapi er samhljómur um að flokkar IV, V og VI þurfi aðgerðar.
Það hefur verið minni samhljómur meðal lækna um hvort flokkur III þurfi meðferðar en seinni ár hefur verið boðið upp á aðgerð fyrir þá einstaklinga sem falla í þannan flokk en áður. Það er helst vegna þess að nýrri aðferðir til viðgerðar hafa komið fram og gefið góðan árangur.
Meðferð
Flokkar I og II
Einkennameðferð fyrst og fremst. Forðast fatla en halda öxlinni í hreyfingu upp að sársaukamörkum og forðast þungar lyftur eða vinnu í eða yfir axlarhæð. Einstaklingar í þessum flokkum mega búast við allt að 8 - 12 vikna bataferli.
Flokkur III, IV og V
Þessir einstaklingar eiga að fá skoðun og mat hjá axlarsérfræðingi fljótt eftir áverka því ef það kemur til aðgerðar ætti að framkvæma hana helst innan 10 daga frá áverkanum svo raunhæftur möguleiki verði á að samsíðungs- og keiluliðböndin grói á ný.
Aðgerðin er gerð með liðspeglun að mestu. Ankeri er komið fyrir undir krummaklakkshyrnunni og í gegnum borgöng upp í viðbeinið eru þræddir þræðir sem festast í annað ankeri á ofanverðu viðbeininu. Þessir þræðir halda viðbeininu nægilega stöðugu svo liðböndin geti gróið á ný. Samtímis er liðpokinn um sjálfan liðinn saumaður saman og styrktur með samskonar þræði og nýttur er í ankerin.
Flokkur VI
Mjög sjaldgæfur áverki en er í raun neyðartilvik því viðbeinið sem festist undir krummaklakkshyrnunni þrýstir á axlarslagæðina og taugaflækju axlarinnar. Hér þarf snör handtök til og samvinna reynds axlarskurðlæknis og æðaskurðlæknis er skilyrði.