Fremra liðhlaup
Í þessum pistli er fjallað um fremra liðhlaup eftir áverka á öxlina en ekki um ofurhreyfanlegar axlir eða aftari liðhlaup sem er fjallað um í eigin pistlum.
Fremri liðhlaup verða venjulega við áverka á útréttan arm. Kraftyfirfærslan verður til að liðhöfuð upphandleggjarins þrýstist fram á við / oft einnig ská niður á við og mjúkvefir axlarinnar ná ekki að halda á móti. Í sumum tilfellum ná mjúkvefirnir að halda á móti en liðskálin framanverð brestur og höfuðið nær að renna úr lið.
Einkenni
Sársauki, upphandleggurinn er oft lítið eitt snúinn út á við og það má sjá dæld undir axlarhyrnunni hjá grannholda einstaklingum og arminum er haldið að líkamanum..
Orsakir
Fyrsta liðhlaup orsakast venjulega við fall á útréttan arminn. Það getur einnig orðið til vegna snúningsáverka á arminn.
Áhættuþættir
Erfðir hafa mikið að segja um áhættu á liðhlaupi og hvaða athafnir maður stundar. Það eru fáir aðrir áhættuþættir sem auka áhættuna á fyrsta liðhlaupi en nokkrir þættir geta aukið áhættuna á endurteknum liðhlaupum eftir fyrsta liðhlaupið.
Þessir þættir eru; ungur aldur við fyrsta liðhlaup, brot á liðskál herðablaðsins, konur eru í aukinni áhættu og ef viðkomandi hefur aukið hreyfisvið í liðum.
Greining
Með hliðsjón af áverkasögunni og klínískri skoðun ætti sterkur grunur að vera til staðar um liðhlaup. Röntgenmynd af öxlinni staðfestir greiningu og gefur einnig góða yfirsýn yfir hugsanlega áverka á liðskálinni eða aðlægum upphandleggnum sem gæti þurft að taka tillit til þegar reyna á setja í liðinn.
Mjög mikilvægt er að kortleggja hugsanlega áverka á taugum efri útlims áður en reynt er að setja í lið og einnig eftir að dregið hefur verið í liðinn. Áverkar á holhandartauginni eru algengastir taugaskaða við liðhlaup í öxl og geta kallað á bráða sérhæfða meðferð.
Meðferð
Meðferðin skal sniðin að hverjum og einum sjúklingi, störfum og áhugamálum hans. Almennt má segja að því yngri sem sjúklingurinn er þegar öxlin fer úr lið þá líklegra er að aðgerðar sé þörf. Eldri einstaklingar lenda síður í endurteknum liðhlaupum en geta hlotið skaða samfara liðhlaupi sem krefjast aðgerðar.
Algengustu aðgerðir til að auka stöðugleika axlarinnar:
Bankart aðgerð
Hefur verið í gegnum tíðina algengasta aðgerð við liðhlaupi í flestum löndum öðrum en Frakklandi. Er enn nýtt mjög mikið og hentar vel fyrir þá sem hafa aðallega mjúkvefjaáverka og þá sem stunda ekki íþróttir þar sem um átök við andstæðing er að ræða s.s. handbolta, fótbolta eða rugby.
Þessi aðgerð er öllu jafna gerð með liðspeglun. Notuð eru smá ankeri sem eru fest í bein liðskálarinnar og þræðir frá ankerunum notaðir til að suma liðvörina og útteygðan liðpokan aftur á brún liðskálarinnar. Aðgerðin sjálf tekur á milli 20 til 60 mínútur.
Eftir aðgerðina notar sjúklingurinn fatla fyrstu 4 vikurnar og að þeim liðnum tekur við sjúkraþjálfun. Það er ekki mælt með íþróttaiðkun fyrr en að 4 mánuðum liðnum og ef um íþrótt þar sem um átök við andstæðing (handbolti, fótbolti eða rugby) er ekki mælt með íþróttaiðkun fyrr en að 6 mánuðum liðnum frá aðgerð.
Remplissage (Viðbót):
Við fremra liðhlaup axlarinnar getur orðið skaði á aftanverðu liðhöfðinu, svokallaður Hill-Sachs áverki (nefndur eftir tveimur skurðlæknum sem lýstu þessum áverka). Stundum gerir þessi áverki það að verkum að sjúklingurinn á auðveldara með að renna úr lið, sérstaklega við snúning upphandleggjarins út á við. Í þessum tilfellum er stundum þörf á viðbótaraðgerð.
Þessi aðgerð er gerð samtímis Bankart aðgerðinni, sem liðspeglun. Liðpokinn og sin neðankambsvöðvans er saumuð inn í skaðann.
Með þessu móti hindrar aðgerðin að sjúklingurinn geti snúið upphandleggnum svo langt út að öxlin renni úr lið.
Latarjet aðgerð:
Nefnd eftir franska skurðlækninum Michel Latarjet sem starfaði í borginni Lyon og gerði þessa aðgerð fyrstur árið 1954.
Þessi aðgerð hefur verið fyrsti valkostur í frönskumælandi löndum síðan. Í aðgerðinni sem oftast er gerð opin, er lítill skurður gerður frá krummaklakknum og skáhallt niður á móti olnboganum, um það bil 5 - 7 cm langur. Maður sagar af ystu 2,5 - 3 cm af krummaklakknum og þessi beinbiti ásamt sameinaðri sin stutta höfuðs tvíhöfðavöðva og krummaklakks-upphandleggsvöðva er settur í gegnum herðablaðsgrófarvöðvann og skrúfaður fastur á fremri brún liðskálarinnar.
Aðgerðin veitir betri stöðugleika fyrir öxlina þar sem sameinaða sin stutta höfuðs tvíhöfðans og krummaklakks-upphandleggsvöðvans veitir aðhald að liðhöfðinu þegar það vill renna fram á við.
Sögulega séð hefur þessi aðgerð verið minna notuð utan Frakklands vegna ótta við taugaskaða á holhandartauginni sem getur orðið við framkvæmd aðgerðarinnar.
Aðgerðin sjálf tekur um 45 - 60 mínútur og ekki er þörf á fatla eftir aðgerðina. Fyrstu tvær vikurnar skal sjúklingurinn vera með arminn í ró en eftir tvær vikur má viðkomandi byrja að lyfta arminum upp í 90° fráfærslu og beygju og fullan snúning út á við ef verkir leyfa.
Íþróttaiðkun er venjulega leyfð að fullu að 3 mánuðum liðnum.
Endurhæfing
Það gildir einu hvaða aðgerð gerð er til að auka stöðugleika axlarinnar, allir sjúklingar þurfa að fara í gegnum endurhæfingu. Fyrst miðar hún að verkjastillingu, styrkingu axlarinnar og svo síðar í ferlinu að þeim hreyfingum eða hvernig sjúklingurinn þarf að beita öxlinni í starfi eða leik.