Frosin öxl

Frosin öxl er algengur kvilli, sársaukafullur og veldur talsverðri skerðingu lífsgæða vegna minni hreyfigetu um axlarliðinn. 

Einkenni

Í fyrstu sem sár verkur í öxlinni án nokkurs fyrirboða. Sársauki við allar hreyfingar, sérstaklega snúning inn eða út á við. Eftir því sem á líður stífnar öxlin og hreyfigetan verður minni, yfirleitt minnkar verkurinn. Sjúklingar finna oft fyrir sársauka þegar þeir reyna að pressa öxlina út að ytri mörkum hreyfigetunnar. Hjá um 60% sjúklinga eykst hreyfigetan á ný eftir nokkra mánuði og þeir ná yfirleitt ágætri hreyfigetu á nýjan leik til að geta stundað flestar athafnir daglegs lífs án vandkvæða. Sjaldan fær maður samt sömu hreyfigetu og fyrr. 

Orsakir

Frosin öxl getur komið í kjölfar slysa, aðgerða og minni áverka inni í öxlinni. Oftast er þó ekki nein skýr ástæða fyrir því hví maður fær frosna öxl. 

Frosin öxl - sterar

Áhættuþættir

Frosin öxl er algengari hjá konum en körlum. Algengast er að sjúklingar eru á aldrinum 45 - 65 ára. Sjúklingar med skjaldkirtilssjúkdóma og sykursýki er hættara við að fá frosna öxl en öðrum. Sykursýkissjúklingar hafa einnig oft erfiðari sjúkdóm að stríða en aðrir með frosna öxl. Reykingar eru klár áhættuþáttur ásamt því að hafa lófakreppu (Dupuytren’s contracture).

Greining

Fyrst og fremst góð sögutaka og klínísk skoðun. Það eru fá önnur mein í öxlinni sem líkjast frosinni öxl nema e.t.v. liðhrörnun. Röntgen getur útilokað liðhrörnun. Það er sjaldan þörf á segulómun eða ómskoðun nema það liggi fyrir grunur um að áverki inni í öxlinni hafi valdið frosinni öxl. 

Meðferð

Í grunninn eru ágætis líkur á að þetta geti gengið yfir af sjálfu sér. Ef sjúklingurinn getur lifað ágætu lífi að eigin mati þrátt fyrir hreyfiskerðinguna sem oftast er tímabundin og verkirnir ekki þeim mun verri þá þarf ekki að beita meðferð annarri en fræðslu um sjúkdóminn. 

Sjúkraþjálfun hefur ekki flýtt fyrir aukinni hreyfigetu hjá sjúklingum með frosna öxl. 

Sprautumeðferð með barksterum:

Ef sjúklingurinn er í fyrsta fasa sjúkdómsins er sprautumeðferð með barksterum gagnleg meðferð til að bremsa af og stoppa framgang sjúklingsins. Meðferðin er einnig góð verkjameðferð. Yfirleitt þarf ekki meira en eina sprautu. Það ætti að fara varlega í slíka meðferð hjá sykursýkissjúklingum þar sem barksterarnir geta haft þá aukaverkun að gera stjórnun blóðsykurs erfiðari í nokkrar vikur eftir inndælingu.

Aðgerð á liðpoka axlarliðarins:

Hjá þeim sjúklingum sem geta ekki fengið sprautumeðferð eða hafa komið til læknis svo seint að sprautumeðferð vil ekki gagnast þeim er aðgerð góður kostur. 

Aðgerðin er speglunaraðgerð og þá er liðpoki axlarinnar opnaður upp allan hringinn að innan með litlum brennsluhníf. Aðgerðin sjálf tekur um 20 mín og eftir aðgerðina er ekki þörf á fatla og sjúklingurinn hefur fulla hreyfigetu um axlarliðinn eftir aðgerðina.