Hröngl í olnbogalið
Hröngl (lausir bitar) í olnbogalið er hvimleiður kvilli. Þar sem eitt eða fleiri hröngl myndast og geta náð þónokkurri stærð. Þessir bitar festast oftast í liðpokanum innanverðum. Mörg okkar hafa lausa bita en verðum þess sjaldan vör.
Einkenni
Getur valdið sárum verkjum og tímabundnum læsingum í liðnum lendi hrönglið inn á milli beinanna í liðnum. Einnig getur það valdið skerðingu á hreyfisviði ef stærð þeirra er nægilega stór og eða sitja í ölnarhöfðagrófinni.
Orsakir
Algengast er að lítill brjósk- eða beinbiti losni og líkaminn myndar kápu í kringum hann. Þessi biti getur vaxið í umfangi, ekki svo ólíkt perlu í ostru. Áverkar á olnbogan, liðhrörnun á brjóskinu eru þekktir áhættuþættir en einnig vinna með verkfæri eins og loftpressur, höggbora yfir lengri tíma.
Meðferð
Ef hrönglið er farið að valda sársauka og læsingum er eina meðferðin að fjarlægja bitana. Þeir eru fjarlægði með speglunaraðgerð, samtímis fær skurðlæknirinn góða yfirsýn yfir liðinn og hvort einhverjir áverkar hafa orðið á liðbrjóskinu vegna hrönglsins.
Að aðgerð lokinni er yfirleitt leyfð frí hreyfing um olnbogann en þung vinna er yfirleitt ekki ráðlögð fyrr en sárin hafa lokað sér almennilega, eftir ca. 2 vikur. Sauma þarf ekki að fjarlægja þar sem þeir hverfa af sjálfu sér.
Getur hrönglið komið aftur?
Það er möguleiki á því að líkaminn myndi hröngl aftur en það er ekki algengt að hrönglið valdi einkennum.