Liðhrörnun í axlarhyrnulið
Axlarhyrnuliðurinn er liðamót viðbeins við herðablað. Er staðsettur efst á öxlinni og veitir stuðning þegar við lyftum arminum yfir axlarhæð. Nærri allir einstaklingar hafa teikn um liðhrörnun í liðnum þegar við erum komin yfir þrítugt en einungis hluti okkar fær einkenni vegna þessa.
Einkenni
Koma yfirleitt hægt og rólega fram sem verkir við vinnu yfir axlarhæð. Það getur verið vont að sofa á hliðinni. Margir kvarta yfir verk í líkingu við tannpínu í og við liðinn. Algengt er að konur finni fyrir óþægindum að hafa hlýrann af brjóstahaldara yfir liðnum. Óþægindi við að ganga með bakpoka.
Orsakir
Axlarhyrnuliðurinn er fyrir margra hluta sakir frekar óvenjulegur liður og það er ekki vitað fyrir víst hví hann sýnir merki liðhrörnunar fyrr en nær allir aðrir liðir. Einnig er það á huldu hví einungis sumir þróa með sér einkenni en aðrir ekki þó myndgreining sýni sambærilega hrörnun hjá báðum einstaklingum.
Það er hins vegar hægt að slá því föstu að líkamleg vinna veldur ekki hrörnuninni eða áhugamál eins og kastíþróttir því hrörnun liðarins er jafn algeng hjá kyrrsetufólki sem og þeim sem stunda líkamsrækt af kappi eða vinna líkamlega erfiða vinnu.
Áhættuþættir
Engir sérstakir þekktir
Greining
Góð saga og skoðun eru nægileg til að koma með grunn til greiningar. Gullstandard til greiningar er sprauta af staðdeyfingarefni í liðinn og liðpokann. Hverfi einkenni á 5 - 10 mínútum eftir sprautu er hægt að fastslá að einkennin eru vegna liðhrörnunar.
Myndgreining (röntgen, segulómun og ómun) geta verið gagnleg þegar kemur að meðferðinni en eru yfirleitt ekki nauðsynleg til greiningar.
Meðferð
Bólguhamlandi sterar:
Þegar greiningarpróf er gert með inndælingu af staðdeyfingu í liðinn er yfirleitt blandað bólguhamlandi sterum saman við staðdeyfinguna. Sterarnir eru oft nóg til að fleyta sjúklingum í gegnum verkina í allt að 3 mánuði en verkirnir koma yfirleitt aftur að þeim tíma liðnum.
Aðgerð:
Hægt er að framkvæma liðspeglun á axlarhyrnuliðnum. Bólguvefur liðslímhimnunar er fjarlægður og með litlum fræsara er fjarlægir maður u.þ.b. 5-6 mm af ytri enda viðbeinsins og 1-2 mm af gagnstæðri axlarhyrnu. Samtímis fjarlægir maður beinnabba sem oft myndast á efri liðbrún liðarins en gæta þarf að því að skaða ekki liðpoka liðarins í aðgerðinni því þá getur sjúklingurinn endað með óstöðugan axlarhyrnulið.