Liðhrörnun axlarliðar

Má skipta gróft í 5 flokka (þeir eru fleiri en þessir eru veigamestir)

Slitgigt

Þrátt fyrir nafnið þá er slitgigt ekki tilkomin vegna slits á liðnum, þ.e.a.s. slitgigt er ekki tilkomin vegna álags á liðnum. Endurnýjun brjósksins verður hægari og hægri með aldrinum og heldur ekki í við niðurbrot þess. Það eru sterkir erfðaþætti sem spila inn í tilkomu og framvindu sjúkdómsins. Algengasta ástæða liðhrörnunar í axlarliðnum.  

Liðhrörnun vegna slits á vendisinum axlarinnar

Stærri áverkar á vendisinum axlarinnar valda liðhrörnun á brjóski liðarins þegar fram líða stundir. Þetta er talið vera vegna þess að vendisinarnar geta þá ekki lengur haldið liðhöfðinu stöðugu í liðskál axlarinnar. Þetta ferli er þó enn torskilið og vonandi mun rannsóknarvinna framtíðarinnar gefa okkur betri þekkingu á þessu ferli. 

Liðagigt

Bólgusjúkdómur sem leggst á liðhimnu liðanna og veldur bólgu í þeim. Nú orðið sjá bæklunarlækna umtalsvert færri sjúklinga með langt komna liðagigt þökk sé gríðarlegum framförum í líftæknilyfjum á síðustu áratugum. 

Liðhrörnun eftir áverka

Brot á liðskál eða liðhöfði geta haft með sér snemmbæra liðhrörnun í öxlinni. Einnig geta endurtekin liðhlaup í öxlinni valdið áverka á brjóskinu sem hrörnar fyrr en ella. 

Blóðþurrðardrep í liðhöfði upphandleggjar

Hjá einstökum sjúklingum verður drep í beininu undir liðbrjóskinu vegna blóðþurrðar. Áhættuþættir fyrir slíkri liðhrörnun er mikil notkun á barksterum, alkóhólneysla, köfunarveiki, brot á upphandlegg og nokkrir sjaldséðir sjúkdómar. Byrjar yfirleitt sem bráður verkur í öxlinni en myndgreining er í fyrstu eðlileg. Síðar meir sýnir segulómun óeðlilega beinmynd og svo síðar meir má sjá ummerki um blóðþurrðardrep á röntgenmyndum. 

Gigt í öxl

Hér er í höfuðatriðum fjallað um fyrstu tvo flokkana sem deila mörgum atriðum. 

Einkenni

Verkir við hreyfingu og álag á öxlina. Margir upplifa verki við að liggja á öxlinni og nætursvefninn verður oft slitróttur vegna verkja á nóttunni. Þegar sjúkdómurinn ágerist verður hreyfiskerðing, stundum má heyra og eða finna murr frá liðnum við hreyfingu. 

Orsakir

Helstu orsakir eru nefndar hér að ofan. 

Áhættuþættir

Erfðir, aldur, offita, áverkar á vendisinum axlarinnar. 

Greining

Saga sjúklings og góð skoðun getur nærri sett greininguna fasta. Hefðbundin röntgenmynd getur fastsett hana endanlega. Tölvusneiðmynd er nauðsynleg ef liðskiptiaðgerð er fyrirhuguð, hana getur skurðlæknirinn þinn pantað. 

Segulómun er ekki góð myndgreining til mats á liðhrörnun axlarliðarins 

Slit í öxl

Meðferð

Einkennameðferð og þjálfun

Einkenni liðhrörnunar koma og fara yfir langan tíma. Sjúklingar geta upplifað tímabil með talsverðum verkjum og óþægindum sem þarfnast verkjalyfja (paracetamols +/- bólgueyðandi verkjalyfja) og svo einnig tímabila með minni verkjum og óþægindum. Það er mikilvægt að viðhalda virkni eins gott og auðið er eins og verkir leyfa. 

Öfugt við það sem margir halda þá eykur hreyfing ekki á slit liðar heldur þvert á móti hefur reglubundin hreyfing sýnt sig minnka verki og seinka þörf á gerviliðarskiptum. 

Liðspeglun

Er ekki nýtt reglulega sem meðferð við liðhrörnun axlarliðar nema í undantekingartilfellum. 

Næturverkur öxl

Liðskiptiaðgerð

Þegar sjúklingar hafa ekki lengur gagn af verkjalyfjum, verki við hreyfingu, nær stöðuga hvíldarverki og næturverki, getur liðskiptaðgerð komið til greina. Liðskipti í öxl geta gefið mjög góða lausn frá verkjum en öxlin verður ekki eins góð og hún var þegar maður var upp á sitt besta.

Þegar kemur að liðskiptiaðgerðum í öxl þá eru tvær mismunandi gerðir gerviliða sem koma til greina. 

Hefðbundin gerviliður í öxl

Notaður þegar vendisinar axlarinnar eru heilar. Sjúklingar viðhalda nær öllu hreyfisviði axlarinnar en hafa ekki sama kraft við lyftu og vinnu yfir axlarhæð eins og þegar þeir voru upp á sitt besta. Ekki þörf á saumatöku þar sem saumurinn leysist upp af sjálfu sér. Fyrstu 4 vikur eftir aðgerð gengur sjúklingurinn með fatla en að þeim tíma liðnum byrjar virk sjúkraþjálfun undir stjórn sjúkraþjálfara. 

Viðsnúinn gerviliður í öxl

Nýttur þegar vendisinar axlarinnar eru ekki heilar, við brot í öxlinni og ef aðstæður í liðnum eru á þann háttinn að hefðbundinn liður er ekki mögulegur. Flestir sjúklingar upplifa eitthvert tap á lyftu arms yfir axlarhæð og innsnúning arms. Ekki þörf á saumatöku þar sem saumurinn leysist upp af sjálfu sér. Í flestum tilfellum er ekki þörf á fatla eftir aðgerðina og sjúklingurinn má byrja að hreyfa arminn varlega. Sjúkraþjálfun getur hafist á fyrstu dögum eftir aðgerina. 

Í þeim tilfellum sem skurðlæknir mælir með fatlanotkun, þá ber að nota hann fyrstu 4 vikurnar eftir aðgerð og að þeim tíma liðnum skal virk sjúkraþjálfun byrja.

Gerviliður öxl
Gerviliður öxl viðsnúinn