Sinamein (tendinopathy) í vendisinum axlarinnar
Allar frumur líkamans, hvort sem þær mynda bein, innri líffæri eða hár þurfa að endurnýja sig reglulega. Þetta gildir einnig um frumur í sinum líkamans. Af ástæðum sem enn eru óljósar virðist það gerast hjá sumum okkar að frumurnar ná ekki að halda í eðlilega endurnýjun og framleiðsla þeirra á kollageni og öðrum utanfrumefnum byrjar að hökta. Eðlileg starfsemi fruma er nauðsynleg til að sinin geti sinnt sínu verkefni. Þessi starfsemi er líklegri til að raskast hjá þeim sem reykja, hafa sykursýki og með hækkandi aldri.
Einkenni
Eru líkir öðrum ástæðum fyrir verkjum undir axlarhyrnu. Þau koma yfirleitt hægt og rólega fram sem verkur undir eða við axlarhyrnuna þegar maður lyftir arminum út til hliðar, frá kroppnum. Dæmigert einkenni við slíka hreyfingu er að verkirnir koma fram þegar armurinn er kominn ca. 60° frá kroppnum og eru viðvarandi þar til armurinn er kominn yfir axlarhæð í ca. 120°. Þegar armurinn er svo kominn beint upp er verkurinn yfirleitt mun minni eða enginn. Verkirnir leiða oft niður í upphandlegginn og mjög oft hindra þessir verkir nætursvefn. Það er sjaldan að áverkar valdi þessu.
Orsakir
Orsakir fyrir sinameini eru ekki alveg ljósar. Athyglisvert er að meinið kemur nær alltaf á sama stað í sininni, þ.e.a.s. þar sem blóðflæðið er minnst. Þetta á einnig við um sinar sem hafa líka uppbyggingu eins og hásinina. Á síðustu árum hafa komið sterkari vísbendingar um að þetta tengist efnaskiptavillu í líkamanum.
Áhættuþættir
Reykingar, aldur, sykursýki, vanstýring á herðablaði
Greining
Saga sjúklings og góð skoðun gefur yfirleitt greininguna um heilkenni verkja undir axlarhyrnu en endanleg greining á hver orsökin er fæst með myndgreiningu. Ómskoðun kemur að góðum notum í höndum reyndra ómskoðara en segulómun er besta greiningartækið.
Venjuleg röntgenmynd og eða tölvusneiðmynd er ekki mjög gagnleg þegar kemur að greiningu sinameins í vendisinum axlarinnar.
Meðferð
Hér er grunnmeðferðin þjálfun. Sinarnar geta gróið og þær gera það best undir hæfilegu álagi. Góður sjúkraþjálfari með þekkingu á axlarvandamálum er gulls ígildi. Sjúkraþjálfarinn getur ekki lagað vandamálið fyrir þig, það þarft þú að gera með æfingum, en sjúkraþjálfarinn getur leiðbeint og stýrt þjálfuninni. Stundum er þörf á verkjastillingu með bólguhamlandi verkjalyfjum, paracetamol eða sprautu af barksterum í hálabelginn svo að maður geti æft.