Vanstýring á herðablaði
Vanstýring á herðablaði er flókið fyrirbæri sem hefur vakið meiri eftirtekt síðastliðin ár en við skiljum ekki enn til fulls. Stundum getum við ekki sagt hvort vanstýring á herðablaðinu er orsök verkjanna eða afleiðing annars skaða í öxlinni. Greining krefur því góðs skilnings á hreyfingum herðablaðsins og ítarlegrar skoðunar með vökulu auga fyrir öðrum axlarmeinum sem geta verið orsök vanstýringarinnar.
Axlarliðurinn er hreyfanlegasti liður líkamans og allar hreyfingar um hann krefja mikillar samhæfingar ólíkra vöðva á ólíkum stöðum á ólíkum tímum í hreyfikeðjunni. Röskun á þessari samhæfingu yfir lengri tíma getur valdið álagsmeiðslum sem erfitt getur verið að vinda ofan af.
Þegar við lyftum upp örmum þá hugsum við fæst um hvernig við gerum það, armarnir lyftast upp og næla í það sem við girnumst úr efstu hillu. Herðablaðið gefur upphandleggnum stöðugan grunn til að standa á með að færa liðskálina til svo hún geti tekið við álagskröftum frá upphandleggnum. Til þess þarf herðablaðið að vera hreyfanlegt og renna til á afturhluta brjóstveggjarins. Í raun er ⅓ af allri hreyfingu um axlarliðinn eftir 30° fráfærslu eða beygu, hreyfing herðablaðsins en ekki einungis upphandleggjar.
Hreyfingar herðablaðsins
Í grunninn má segja að það eru sex vöðvar sem stjórna hreyfinu herðablaðsins á brjóstveggnum. Samhæfing þeirra er undirstaða góðrar og styrkrar axlar en það er algengara en margan grunar að samhæfingin raskast.
Vöðvarnir sex eru:
Sjalvöðvinn sem er einn af stærstu vöðvum líkamans og hefur margvíslega starfsemi eftir því hvaða hluti hans framkvæmir vinnuna. Hann á uppruna sinn á hnakkabeininu og öllum baktindum hryggjarliðanna frá 1. hálslið niður að 12. brjóstlið. Sjalvöðvinn festist svo yst á aftanvert viðbeinið, axlarhyrnuna sjálfa og eftir allri herðablaðsnibbunni.
Herðablaðslyftir sem kemur frá þvertindum 1. - 4. hálsliðar og festist á herðablaðsröndina ofan við herðablaðsnibbuna.
Minni bringuvöðvinn sem á upphaf sitt á 3. - 5. rifbeini og festist á krummaklakk herðablaðsins.
Fremri sagarvöðvinn sem á upphaf sitt á 1. - 9. eða 10. rifbeini (misjafnt milli fólks) og festist innst inni á allri herðablaðsröndinni.
Litli tígulvöðvinn sem kemur frá baktindum 7. hálsliðar og 1. brjóstliðar og festist á herðablaðsröndina í hæð við herðablaðsnibbuna
Stóri tígulvöðvinn sem liggur rétt neðar en litli bróðir sinn, kemur frá baktindum 2. - 5. brjóstliðar og festist á herðablaðsröndina
Einkenni
Eru oftast frekar lúmsk og háð því hvað veldur vanstýringunni. Vanstýring á herðablaðinu er ein algengast orsök verkja undir axlarhyrnunni. Einnig er vanstýring á herðablaðinu algeng orsök “vöðvabólgu” í herðum og höfuðverkjar sem oft fylgir með. Í langvinnum tilfellum getur sjúklingurinn fundið fyrir einkennum sem svipar til frosinnar axlar en við nánari skoðun má greina á milli.
Orsakir
Oft er erfitt að finna út hvað veldur þessari vanstýrinu á herðablaðinu. Áverkar á taugum geta valdið slíkri vanstýrinu en það er frekar sjaldgæft. Sjúklingar sem hafa verki í öxlum þróa oft með sér vanstýrinu á herðablaðinu til að vega upp á móti sársaukafullri hreyfingu. Ef slíkt ástandi varir lengi er talið að stjórnstöðvar hreyfinga í heilanum læri í raun að þetta hreyfimynstur er hið nýja “rétta” hreyfimynstur.
Algengustu tilgátur um orsakir vanstýringarinnar eru þær að það er ekki nægilegt jafnvægi í styrk þeirra sex vöðva sem stýra hreyfingunum og líkamsstaða okkar geti verið þáttur í að við töpum stjórn á herðablaðinu.
Áhættuþættir
Einhliða líkamsþjálfun, einhæf líkamsstaða við vinnu. Áverkar á öxlinni.
Greining
Er einungis gerð með ítarlegri líkamsskoðun.
Meðferð
Í langflestum tilfellum er sjúkraþjálfun undir stjórn reynds sjúkraþjálfara með góða þekkingu á öxlum sú meðferð sem þarf. Að þjálfa upp og styrkja vöðvahópana í réttum styrk og læra beitingu þeirra á ný getur tekið tíma og krefur nokkurs af sjúklingnum í ástundun æfinga.
Í einstaka tilfellum er botox meðferð valin eða skurðaðgerð framkvæmd. Þetta á sérstaklega við í tilfellum þar sem minni bringuvöðvinn svarar ekki þjálfun og hefur styst úr hófi eða ef um áverka sem orsakar vanstýringuna.