Áverkar og sinamein í löngu sin tvíhöfðans

Sinamein í löngu sin tvíhöfðavöðvans eru ýmist eftir áverka eða álagsmeiðsli.  Vegna legu sinarinnar í öxlinni er sinin útsett fyrir að renna úr skorinni sem hún liggur í áður en hún kemur inn í sjálfan axlarliðinn. Einnig geta vandamál tengd sininni stafað af festu hennar sem oftar en ekki er í efst í liðvör axlarliðarins.

Einkenni

Margir finna fyrir óþægindum við vinnu yfir axlarhæð, lýsa stundum að eitthvað inni í öxlinni renni til og smelli þegar arminum er haldið út frá kroppnum og snúið. Mjög algengt að verkurinn sitji framan til í öxlinni og leiði niður í upphandlegg allt að olnbogabót. 

Sjúklingar geta fundið fyrir erfiðleikum við að skrúfa með skrúfjárni, lyfta burðarpoka upp á eldhúsborðið eða sækja öryggisbelti aftur fyrir sig í bíl. 

Biceps verkur

Orsakir

Festumein sinarinnar (SLAP):

Algengast er að þetta er vegna legu sinarinnar sem festir sig oft efst í liðvör axlarliðarins. Liðvörin sjálf er ekki nægilega góð festa fyrir sinina og með tímanum gerist það oft að liðvörin losnar frá liðskálsbrúninni. 

Slíkur skaði getur einnig komið eftir áverka oftast þá tog í arminn meðan sjúklingurinn beygir um olnboga og rétthverfir framhandleggnum. Nánar um festumein / SLAP

Óstöðug sin:

Langa sin tvíhöfðvans liggur upp eftir upphandleggnum í skor sem myndast milli minni hnjóts og stærri hnjóts axlarinnar að framan. Þegar sinin kemur inn í sjálfan axlarliðinn tekur hún skarpa beygju inn mót efsta hluta liðskálarinnar þar sem hún festist. Sininni er haldið á réttum stað af liðbandi sem getur teygst eða rofnað og þá er hætt við því að sinin geti farið að renna úr skorinni og valdið óþægindum og verkjum. 

SLAP áverki

Áhættuþættir

Kastíþróttir (handbolti og blak), vanstýring á herðablaði vegna stífleika og stutts minni brjóstvöðvans. Meðfæddir breytileikar í sininni sem festist á mismunandi stöðum í öxlinni. 

Greining

Góð sögutaka og skoðun er oft nægileg til að koma manni á sporið og myndgreining (ómskoðun eða segulómun getur hjálpað til). 

Meðferð

Fyrirbyggjandi meðferð er best. Slík meðferð ætti að vera innbyggð í alla þjálfun kastíþrótta. Góð og styrk hreyfing herðablaðsins er það eina sem hægt er að nota til að fyrirbyggja skaðann.

Festumein sinarinnar:

Áður fyrr var mikið deilt um hvers konar aðgerð væri best til að bjóða þessum sjúklingum en frábær vinna rannsakanda við Lovisenberg sjúkrahúsið í Osló leiddi í ljós að vel uppbyggð og ástunduð sjúkraþjálfun hafði ekki síðri árangur en aðgerð. Hafi sjúkraþjálfun ekki skilað tilætluðum árangri eftir 4 mánuði getur aðgerð komið til greina. Undantekningin frá þessu eru þeir sjúklingar sem hafa liðvararbelg sem þrýstir á efri herðablaðstaugina. Þessir sjúklingar þurfa aðgerð til að loka belgnum. Um þetta ástand er nánar fjallað um í festumeinum löngu sinar tvíhöfðans. 

Paralabral cyst
Liðvararbelgur

Óstöðug sin:

Ef liðbandið sem heldur aftur af löngu sin tvíhöfðvans er einungis teygt en ekki rofið þá hefur sjúkraþjálfun nokkuð að bjóða til að hindra að skaðinn verði verri. Þá er aðallega unnið með stöðu og styrk herðablaðsins ásamt vendisinum axlarinnar til að tryggja sem besta legu fyrir sinina. Stundum er þörf á sprautu af bólguhamlandi sterum til að hjálpa sjúklingnum til að æfa. 

Ef liðbandið er rofið og sinin rennur úr skorinni sinni er hætt við að hún valdið skaða á tveimur af fjórum vendisinum axlarinnar. Miðlægt við löngu sin tvíhöfðvans liggur sin grófarvöðvans sem vendir upphandleggnum inn á við og hliðlægt við sinina liggur sin ofannibbuvöðvans sem hjálpar okkur að lyfta upphandleggnum í fráfærslu. 

Hér vil sjúkraþjálfun gagnast mjög takmarkað en eftirfarandi aðgerðir geta boðist sjúklingum með óstöðuga sin.

Ef aðgerðar er þörf þá er í grunninn tvær aðgerðir í boði:

Sinaskurður:

Langa sin tvíhöfðans er klippt í speglunaraðgerð. Vöðvinn dregur sinina út úr liðnum en yfirleitt festist hún í skorinni sem er áður nefnd. Sjúklingar tapa yfirleitt ekki merkjanlegum krafti við þessa aðgerð. Hjá u.þ.b. 1 af hverjum 3 sjúklingum rennur sinin niður úr skorinni sinni og hjá grennri einstaklingum getur þá myndast “Stjána bláa” merki, þeas að vöðvabúkur tvíhöfðans verður sýnilegri á upphandleggnum. 

Sinaskurður og -festa:

Sinin er klippt í speglunaraðgerð en í staðinn fyrir að láta sinina gróa fasta í skorinni sinni er gerður lítill skurður under sin stóra brjóstvöðvans á upphandleggnum og sinin dregin út þar. Sinin er svo stytt og svo fest við upphandlegginn. Þessi viðbótaraðgerð er yfirleitt framkvæmd á yngra fólki og þeim sem stunda erfiðari líkamlega vinnu eða áhugamál. 

Sinaskurður tvíhöfði