Festumein löngu sinar tvíhöfða

SLAP - áverkar (Superior Labrum Ant- Posterior) 

Þessir áverkar eða hrörnun á efri hluta liðvarar axlarinnar hefur valdið bæklunarlæknum nokkrum heilabrotum í langan tíma og enn er mörgum spurningum enn ósvarað. 

Eftir því sem tækni við liðspeglanir þróaðist fóru skurðlæknar að sjá fleiri breytingar í kringum efri liðvör axlarinnar þar sem langa sin tvíhöfðans festir sig oft. Flestar líffærafræðibækur teikna festuna ofan á liðskálinni og aðskildri frá liðvörinni en raunin er sú að oft er langa sin tvíhöfðans fest við liðvörina sjálfa og það er talið að geta valdið þessum áverka. Það er talið gerast við endurtekið tog sinarinnar í liðvörina sem gefur eftir að lokum, einnig er talið að snarpt tog í arminn geti valdið þessu (þá á veiklaðri festu). 

Fyrsta þekkta heimild um slíkan áverka er líklega úr Gray´s anatomy gefinni út árið 1901 en þá töldu líffærafræðingar þess tíma að undirflokkur SLAP væri tilbrigði á eðlilegri öxl og væri þriðja op axlarliðarins, hin tvö væru þá opið fyrir löngu sin tvíhöfðans í sinni rennu og opið fyrir herðablaðsgrófarvöðvann framan til í liðnum.

Margir setja SLAP áverka og áverka á löngu sin tvíhöfðans saman undir einn hatt. Þetta tvennt á að mörgu leyti margt sameiginlegt en mikilvægt er að skilja á milli því meðferðin er ekki alveg sú sama. Sjá umfjöllun um
áverka á löngu sin tvíhöfðans. 

Einkenni

Einkennin eru yfirleitt lúmsk. Verkur oft djúpt inni í öxlinni, sjúklingar eiga erfitt með að staðsetja hann nánar en margir benda aftan til á öxlina. Verkur við vinnu yfir axlarhæð sem oftast hverfur þegar slíkru vinnu er hætt. Krafttap í öxlinni, sérstaklega við útsnúning og beygju. 

Orsakir

Langvarandi drag löngu sinar tvíhöfðans í efri hluta liðvarar axlarinnar, kröftugt tog í arminn, fall og liðhlaup eru algengustu orsakir SLAP áverka. 

Áhættuþættir

Festa löngu sinar tvíhöfðans í liðvörina

Greining

Góð sögutaka og útlistun á hvenær sjúklingurinn fær einkenni og við hvaða aðstæður. Nákvæm axlarskoðun. Segulómun er yfirleitt nauðsynleg, sérstaklega í þeim tilfellum þar sem um krafttap eða rýrnun á vendivöðvum axlarinnar (oftast neðannibbuvöðva).

Meðferð

Meðferð SLAP áverka er misjöfn eftir flokkum þeirra og hvort viðkomandi sjúklingur glími við önnur vandamál í öxlinni samtímis.

Sjúkraþjálfun

Fyrsta val fyrir all flesta sem glíma við einangraðan SLAP áverka. Áður fyrr var gerð aðgerð á einum algengasta flokki SLAP áverka sem fyrsta val og stóð valið á milli viðgerðar á liðvörinni, sinaskurðar á löngu sin tvíhöfðans eða báðum valkostum.
Í góðri rannsókn, frá árinu 2017 var sýnt fram á að sjúkraþjálfun gaf mjög góðan árangur og langstærsti hluti sjúklinga með einangraðan SLAP áverka fengu jafn góða axlarvirkni og þeir sem fóru í aðgerð. 

Aðgerð

Aðgerðir við SLAP áverkum eru enn framkvæmdar. Það eru undirflokkar SLAP áverka sem krefjast aðgerðar og ef sjúkraþjálfun hefur ekki gefið nægilega góðan árangur getur aðgerð komið til greina. 

Hvaða hópur ætti að fara í aðgerð áður en sjúkraþjálfun hefur verið reynd?

Ef liðvararbelgur er til staðar (paralabral cyst)

Í þessum tilfellum SLAP áverka, myndast nokkurskonar einstefnuventill inni í áverkanum. Liðvökvi þrýstist út við álag en lekur ekki til baka. Með tímanum myndast svokallaður liðvararbelgur sem stækkar hægt og rólega. Belgurinn er uppfullur af þykkum vökva og getur myndað þrýsting á efri herðarblaðstaugina og hindrað eðlilega virkni hennar. Þá rýrna vendivöðvar axlarinnar, algengast að neðannibbuvöðvinn verði fyrir barðinu á þessu en einnig getur ofannibbuvöðvinn og minni tígulvöðvinn orðið fyrir áhrifum.
Í þessum frekar sjaldgæfu tilfellum þarf að gera við liðvörina og loka einstefnuventlinum. Liðvararbelgurinn hverfur hægt og rólega. 

Afrifinn liðvör

Stærri rifur á liðvörinni þar sem partur af henni liggur niður í liðinn. Við slíkan áverka þarf að meta hvort viðgerð er raunhæf eða hvort eingöngu er hægt að fjarlægja afrifuna og þá jafnvel líka flytja festu löngu sinar tvíhöfðans samtímis.

Hvað sem verður fyrir valinu er háð einkennum sjúklings, kröfum til axlarinnar og ástandi áverkans. Með góðu samtali skurðlæknis og sjúklings finnum við hvað passar.