Axlarklemma
Einkenni
Einkennin koma yfirleitt hægt og rólega fram sem verkur undir eða við axlarhyrnuna þegar maður lyftir arminum út til hliðar, frá kroppnum. Dæmigert einkenni við slíka hreyfingu er að verkirnir koma fram þegar armurinn er kominn ca. 60° frá kroppnum og eru viðvarandi þar til armurinn er kominn yfir axlarhæð í ca. 120°. Þegar armurinn er svo kominn beint upp er verkurinn yfirleitt mun minni eða enginn. Verkirnir leiða oft niður í upphandlegginn og mjög oft hindra þessir verkir nætursvefn. Það er sjaldan að áverkar valdi þessu.
Orsakir
Það eru í raun tvær höfuðorsakir fyrir raunverulegri axlarklemmu. Beinvöxtur undir axlarhyrnuliðnum sem þrengir að ofannibbuvöðvanum og getur valdið núningsáverka á honum. Hin orsökin er að krummaklakks-axlarhyrnuliðbandið beingerist og þrengi þar með að fremri hlið ofannibbuvöðvans.
Áhættuþættir
Liðhrörnun í axlarhyrnulið og aldur.
Greining
Einkenni sem passa við verkjaheilkenni undir axlarhyrnu og myndgreining sem sýnir beinvöxt niður frá axlarhyrnuliðnum og eða beingerð krummaklakks-axlarhyrnuliðband.
Meðferð
Fyrir þá fáu sjúklinga sem hafa sanna axlarklemmu er aðgerð fyrsti valkostur. Aðgerðin er speglunaraðgerð í svæfingu. Þessir sjúklingar hafa oftar en ekki einnig einkenni frá axlarhyrnuliðnum vegna liðhrörnunar.