Verkir undir axlarhyrnu
Verkir undir axlarhyrnunni er algengusta vandamálum sem hrjá fólk. Algengast er þetta hjá einstaklingum sem eru komnir yfir fimmtugt en getur komið fyrir yngri einstaklinga líka. Áður fyrr var þetta talið vera vegna þrengsla undir axlarhyrnunni og kallað axlarklemma en frá þeirri skýringu hefur vísindaheimurinn fallið að mestu frá nema í frekar sjaldséðum tilfellum.
Einkenni
Einkennin koma yfirleitt hægt og rólega fram sem verkur undir eða við axlarhyrnuna þegar maður lyftir arminum út til hliðar, frá kroppnum. Dæmigert einkenni við slíka hreyfingu er að verkirnir koma fram þegar armurinn er kominn ca. 60° frá kroppnum og eru viðvarandi þar til armurinn er kominn yfir axlarhæð í ca. 120°. Þegar armurinn er svo kominn beint upp er verkurinn yfirleitt mun minni eða enginn. Verkirnir leiða oft niður í upphandlegginn og mjög oft hindra þessir verkir nætursvefn. Það er sjaldan að áverkar valdi þessu.
Orsakir
Eins og getið var hér að ofan var áður fyrr talið að þrengsl undir axlarhyrnunni yllu þessum verk en rannsóknir hafa sýnt að slíkt er ekki raunin nema í mjög smáum minnihluta tilfella.
Orsakirnar geta í raun verið margar og það er mikilvægt að góð sögutaka og nákvæm skoðun fari fram til að rétt orsök greinist því meðferðirnar eru mismunandi eftir því hver orsökin er.
Þeim er deilt í tvo flokka:
Innri þættir:
Allar frumur líkamans, hvort sem þær mynda bein, innri líffæri eða hár þurfa að endurnýja sig reglulega. Þetta gildir einnig um frumur í sinum líkamans. Af ástæðum sem enn eru óljósar virðist það gerast hjá sumum okkar að frumurnar ná ekki að halda í eðlilega endurnýjun og framleiðsla þeirra á kollageni og öðrum utanfrumefnum byrjar að hökta. Eðlileg starfsemi fruma er nauðsynleg til að sinin geti sinnt sínu verkefni. Þessi starfsemi er líklegri til að raskast hjá þeim sem reykja, hafa sykursýki og með hækkandi aldri.
Þegar eðlileg starfsemi fruma í sinunum raskast þá getur það gerst að þær umbreyti starfsemi sinni og fari að líkjast meir beinfrumum. Það er enn á huldu hví sumar frumur í vendisinum axlarinnar fara í gegnum umbreytingu og byrja að safna kalki í kringum sig. Þetta ferli í sjálfu sér veldur ekki sársauka og líkaminn getur fjarlægt kalkið úr sinunum með tímanum. Kalkið er frekar teikn um að vendisinar axlarinnar eru undir álagi.
Ytri þættir:
Þegar við hreyfum efri útlim út frá kroppnum er nær ⅓ hluti hreyfingarinnar tilkominn vegna hreyfingar herðablaðsins. Ef stýring á hreyfingum herðablaðsins er ekki nægilega góð þá getur það valdið auknu álagi á vendivöðva axlarinnar og síðar meir verkjum.
Í þessum flokki finnast þeir sjúklingar sem hafa í raun þrengsli undir axlarhyrnuliðnum vegna beingadda sem geta vaxið niður frá liðbrúnum axlarhyrnuliðarins.
Einnig getur liðbandið milli krummanefsklakks og axlarhyrnunnar beingerst og þar með valdið núningi inn mót efsta vendivövða axlarinnar, ofannibbuvöðvans.
Áhættuþættir
Um áhættuþættina er nánar fjallað í umfjöllun um hverja orsök fyrir sig. Smelltu á hlekkina hér að ofan til að lesa meira.
Greining
Góð sögutaka og nákvæm skoðun er nauðsynleg til að hvaða orsök er líklegust til að valda verkjunum. Því verkirnir eru oft við fyrstu sýn mjög líkir þá eru orsakirnar mjög ólíkar og meðferðirnar einnig ólíkar.
Meðferð
Hér er einungis tæpt á mismunandi meðferðum við ofangreindum orsökum. Nánari upplýsingar færðu hjá okkur í viðtali eftir ítarlega skoðun.
Hér er grunnmeðferðin þjálfun. Sinarnar geta gróið og þær gera það best undir hæfilegu álagi. Góður sjúkraþjálfari með þekkingu á axlarvandamálum er gulls ígildi. Sjúkraþjálfarinn getur ekki lagað vandamálið fyrir þig, það þarft þú að gera með æfingum, en sjúkraþjálfarinn getur leiðbeint og stýrt þjálfuninni. Stundum er þörf á verkjastillingu með bólguhamlandi verkjalyfjum, paracetamol eða sprautu af barksterum í hálabelginn svo að maður geti æft.
Það eru í grunninn sama meðferð og við hefðbundnum sinameinum. Oftar er þó þörf á sprautu af barksterum í hálabelg axlarhyrnunnar en í hefðbundnum sinameinum.
Í sjaldséðum tilfellum er aðgerðar þörf en það er þá vegna þeirra tilfella þar sem verkjastilling er ekki möguleg vegna óstjórnlegra verkja.
Hér er grunnmeðferðin þjálfun. Hér er þörf á sjúkraþjálfara með góða þekkingu á axlarvandamálum. Þjálfunin felst í að virkja þá vöðva sem stýra hreyfingum herðablaðsins í réttri röð og styrkja þá. Hér er ekki gagn af aðgerð nema í mjög sértækum tilfellum og þá skulu önnur úrræði vera fullreynd fyrst.
Fyrir þá fáu sjúklinga sem hafa í raun axlarklemmu er aðgerð fyrsti valkostur. Aðgerðin er speglunaraðgerð í svæfingu. Þessir sjúklingar hafa oftar en ekki einnig einkenni frá axlarhyrnuliðnum.